Latest stories

  • Liverpool 4 – 3 Chelsea

    Það er alltaf gaman þegar stelpurnar okkar ná að vinna toppliðin, og þetta er þriðji leikurinn í deildinni í vetur sem þær vinna gegn efstu 4 (Arsenal, United, Chelsea). Síðustu mínúturnar voru sérdeilis villtar: staðan var 2-1 fyrir Liverpool á 80. mínútu, þá jöfnuðu Chelsea konur, en mínútu síðar náði Leanne Kiernan aftur forystunni, og staðan orðin 3-2. Chelsea ná AFTUR að jafna á 83. mínútu, en svo þegar það voru komnar 2 mínútur inn í uppbótartímann (sem reyndist vera 10 mínútur þegar upp var staðið) skoraði Gemma Bonner sitt annað mark í leiknum og það reyndist vera sigurmarkið í leiknum. Þess má geta að fjögur mörk komu með skalla eftir hornspyrnu: upphafsmarkið hjá Chelsea, markið hjá Roman Haug, plús bæði mörkin sem Bonner skoraði og fagnaði þar með að ná 150 leikja markinu fyrir Liverpool.

    Þessi úrslit þýðir tvennt: okkar konur fara inn í United leikinn á sunnudaginn jafnar þeim að stigum, en United eru reyndar með talsvert betri markatölu. Í lokaumferðinni mætast svo United og Chelsea annars vegar, og okkar konur mæta Leicester hins vegar. Baráttan um fjórða sætið er því í algleymingi.

    Hins vegar þýða þessi úrslit að Chelsea eru nánast búnar að missa deildartitilinn til City, þær eru núna 6 stigum á eftir þeim og eiga aðeins einn leik til góða. Vissulega eiga Arsenal og City eftir að mætast… svo þetta er ekki búið endanlega fyrir þær, en City eru með betri markamun svo þær mega hreinlega tapa einum leik af þessum síðustu tveim sem eru eftir.

    Staðan í deildinni er annars svona:

    Við verðum svo að sjálfsögðu með umfjöllun um leik kvennaliðsins gegn United á sunnudaginn, en honum lýkur rétt áður en strákarnir okkar mæta Spurs á Anfield.

    [...]
  • Stelpurnar taka á móti Chelsea

    Það er komið að 3ja síðasta leik kvennaliðsins á þessari leiktíð, en núna kl. 18 mæta meistarar Chelsea á Prenton Park.

    Það er alveg full ástæða til að beina kastljósinu aðeins að andstæðingunum fyrir þennan leik. Emma Hayes gaf það út að hún myndi yfirgefa liðið í lok leiktíðar og mun taka við landsliði Bandaríkjanna í sumar. Emma er vissulega búin að vera mjög sigursæl með Chelsea… en á þessari leiktíð hafa þær:

    • farið í úrslit Continental Cup – sem er nokkurnveginn systurkeppni Carabao bikarsins í karlaflokki – og töpuðu þar gegn Arsenal.
    • farið í undanúrslit FA bikarsins, þar sem þær töpuðu fyrir United
    • farið í undanúrslitin í CL, þar sem þær spiluðu 2 leiki gegn Barcelona – þann seinni núna á laugardaginn – þar sem þær töpuðu 0-2 á heimavelli eftir að hafa unnið 0-1 á Spáni

    Semsagt, þær hafa farið langt í öllum keppnum á leiktíðinni en hafa ekki krækt í neina bikara fyrir ómakið. Þá eru þær núna 6 stigum á eftir City í deildinni, eiga vissulega tvo leiki til góða (leikurinn í kvöld annar þeirra), en við vitum að það getur verið erfitt að elta. Leikjaálagið í kvennaboltanum er vissulega ekki það sama og hjá strákunum – en þær hafa samt klárlega þurft að díla við meira álag heldur en okkar konur, og það er smá séns að það geti komið stelpunum okkar til góða í kvöld.

    Okkar konur mæta inn í þennan leik eftir 0-1 útisigur gegn Bristol í síðasta leik. Taylor Hinds spilar sinn 100. leik fyrir félagið í kvöld, og Gemma Bonner spilar leik númer 150, hún verður sú fyrsta til að ná slíkum leikjafjölda fyrir kvennaliðið. Þá er hin 16 ára Zara Shaw farin að æfa aftur eftir að hafa slitið liðbönd í æfingaleik síðasta ágúst. Auðvitað eru litlar líkur á að 16 ára leikmenn fari að hafa mikil áhrif í þessari deild… en það gerðist nú samt bara um síðustu helgi í leik Everton og Arsenal, þar sem hin 16 ára Isabella Hobson skoraði jöfnunarmark Everton í uppbótartíma, og varð þarmeð yngsti leikmaður Everton til að skora.

    Meiðslalistinn er heldur að lengjast, þannig er Rachael Laws ekki leikfær og því þarf að sækja varamarkvörð í akademíuna. Shanice van de Sanden verður ekki meira með á leiktíðinni, og Niamh Fahey er líka frá. En svona verður stillt upp á eftir:

    Micah

    Clark – Bonner – Fisk

    Koivisto – Nagano – Hinds

    Holland – Höbinger

    Enderby – Roman Haug

    Bekkur: Spencer, Daniels, Matthews, Missy Bo, Lawley, Chadwick, Leath

    Semsagt, þrjár stelpur úr akademíunni, þar af Mia Leath sem fékk mínútur gegn City í sínum debut leik. Spurning hvort Chadwick sjáist á grasinu í kvöld? En það er ljóst að Zara Shaw á eitthvað í land með að komast í leikform.

    Leikurinn ætti að vera á Viaplay, og mögulega víðar.

    Við skulum orða það þannig að við yrðum ánægð með eitt stig, og himinlifandi með þrjú. Öll stig í baráttunni um 4. sætið við United eru vel þegin, en auðvitað verður leikurinn við United á sunnudaginn sannkallaður 6 stiga leikur í þeirri baráttu.

    KOMA SVO!!!

    [...]
  • Hverjir fara í sumar?

    Liverpool er á þessu tímabili búið að endurheimta Michael Edwards inn í FSG fjölskylduna, hann fékk inn Richard Hughes yfirmann knattspyrnumála hjá Bournemouth og í sumar tekur Arne Slot við þjálfarastöðunni af Jurgen Klopp. Þar að auki er meira og minna allt nánasta starfslið Klopp á æfingasvæðinu að kveðja. Það þarf ekki byltingu á leikmannahópi Liverpool en allar þessar breytingar utan vallar gera það ansi líklegt að ráðist verði í töluverðar breytingar innan vallar líka. Þessir menn vilja að öllum líkindum innleiða sínar hugmyndir með breytingum á leikmannahópnum.

    Innkaupadeildin er þó ekki öll að breytast, Dave Fallows og Barry Hunter eru áfram lykilmenn bakvið tjöldin þegar kemur að því að vinna upplýsingar frá njósnaraneti félagsins og hafa verið frá því Brendan Rodgers var stjóri félagsins (sælla minninga um Transfer Comittee). Þeir viðhalda smá stöðugleika og hugmyndin með ráðningu Slot er auðvitað að viðhalda að stóru leiti því sem Klopp hefur verið að byggja upp og betrum bæta án þess að umbylta öllu kerfinu.

    Liverpool liðið hefur sýnst gríðarleg þreytumerki núna tvö tímabil í röð sem bregðast þarf við og halda áfram endurnýjun liðsins.

    En áður en Liverpool fer að kaupa leikmenn þarf að ákveða hvaða leikmenn megi fara í sumar. Hópurinn er allt of stór og ef Slot á að fá fleiri leikmenn þarf að kveðja einhverja. Skoðum aðeins hópinn m.t.t. aldurs leikmanna og hversu mikið þeir hafa komið við sögu í deildarleikjum Liverpool í vetur. Það má t.d. spyrja sig hvort “lykilmenn” sem ekki ná að spila meira en 50% af heilu tímabili megi ekki bara vera á sjúkrabekknum annarsstaðar? Hvað þá leikmenn sem ár eftir ár ná ekki að spila 50% af leikjum liðsins.

    Samningslausir

    Það blasir við að Thiago og Matip kveðja í sumar þegar samningur þeirra rennur út. Þeir kveðja félagið báðir á afskaplega viðeigandi hátt í takti við feril þeirra hjá Liverpool. Matip hefur verið meiddur frá 14.umferð og Thiago spilaði án gríns 5 mínútur í 23.umferð.

    Þarna losnar um launapakka eins launahæsta leikmann félagsins (Thiago) sem og Matip sem er sem dæmi sagður vera á svipuðum launum og Robertson. Hrikalega dýrir farþegar hreint út sagt sem spiluðu samanlagt 877 mínútur í vetur. Spáið í því hversu mikið nákvæmlega eins leikmenn og Thiago og Matip myndu styrkja þetta Liverpool lið? Það er einmitt verkefni Richard Hughes og félaga í sumar.

    Adrian fer að öllum líkindum líka í sumar og losar við það eitt sæti fyrir erlendan leikmann í hópnum. Þá er eins spurning hvort leitað verði að öðrum Adrian í staðin eða treyst á yngri markmenn félagsins. Það eru oft fróðleg nöfn þegar maður skoðar hverjir eru þriðju markmenn stórliðanna.

    Markmenn

    (more…)

    [...]
  • Gullkastið – Arne Slot tekur við Liverpool

    Arne Slot stjóri Feyenoord tekur við Liverpool liðinu í sumar eftir að félögin náðu samkomulagi þar um skv. fréttum í síðustu viku. Þessar stórfréttir voru helstu fókus okkar að þessu sinni.
    Verkefnið verður kannski ekki eins erfitt og leit út fyrir nokkrum vikum þar sem þetta tímabil hefur endanlega farið fjandans til í undanförnum leikjum.
    Liðið er þó blessunarlega svo gott sem komið í Meistaradeildina á nýjan leik og eiga í næstu umferð lið sem langar mikið að verða fjórði og síðasti fulltrúi Englands í þeirri keppni á næsta tímabili.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Hér er svo hægt að kaupa miða á Árshátíð Liverpool Klúbbsins 2024

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Jói ÚtherjiÖgurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 472

    [...]
  • Arne Slot tekur við Liverpool í sumar

    Það er ógnvekjandi að hugsa sér Liverpool án Jurgen Klopp, hann er svo afgerandi í uppáhaldi að það er erfitt að sjá fyrir sér að annar stjóri komist nálægt þeim stalli sem Klopp er á. Hann er augljóslega Bill Shankly okkar tíma. Að því sögðu er ágætt að hafa í huga að þegar Bill Shankly hætti sem stjóri Liverpool eftir 15 ár í starfi var tilfinning flestra svipuð og hjá okkur núna, margfaldað með fimm. Sá sem tók við starfinu af honum er ennþá sigursælasti stjóri Liverpool frá upphafi. Það er ekkert lögmál að næsti stjóri á eftir stórum karakter verði David Moyes eða Roy Hodgson, vonlaus stjóri í starfi sem hann ræður ekkert við skugga forvera síns.

    Þegar Klopp tilkynnti að hann ætlaði að hætta eftir tímabilið kom upp frekar snúin staða, það er hreinlega engin knattspyrnustjóri starfandi í dag sem maður vill fá frekar en Jurgen Klopp. Fyrir níu árum var Klopp afgerandi heitasti bitinn á markaðnum og hinn sem kom til greina var Ancelotti. Það þurfti engan kjarneðlisfræðing á launaskrá hjá FSG til að reikna út að Jurgen Klopp væri augljós besti mögulegi valkostur ættum við séns á honum, þó hann hefði aldrei þjálfað annarsstaðar en í Þýskalandi.

    Landslagið er aðeins annað núna og því fögnuðu flestir stuðningsmenn Liverpool því að Michael Edwards væri aftur komin á launaskrá FSG áður en félagið tæki þá gríðarlega stóru ákvörðun hver væri bestur til að taka við af Jurgen Klopp. Hvort það er hann eða Richard Hughes sem fer fyrir teyminu sem ræður næsta stjóri skiptir kannski ekki alveg öllu, við getum líklega ekki bent á neinn yfirmann knattspyrnumála sem við treystum betur til að finna næsta stjóra.

    Það að fá Edwards til baka gaf líka sterklega til kynna að FSG ætlaði að styðjast við öfluga gagnavinnu við þessa ákvarðanatöku. Ekki endilega bara horfa á hvaða stjórar eru í toppliðunum núna óháð því hvort þeirra leikstíll og persónuleiki passi við núverandi hóp Liverpool.

    Endurkoma Edwards bendir einnig til að FSG ætlar aftur með félagið nær Evrópska módelinu að yfirmaður knattspyrnumála sér meira um að stjórna rekstri félagsins á meðan yfirþjálfari liðsins stjórnar æfingum og leikjum. Að sjálfsögðu hefur þjálfarinn sterka rödd þegar kemur að leikmannamálum en þá meira sem partur af teymi frekar en einvaldur. Þegar Klopp tók við árið 2015 var það líka uppleggið og hann staðfesti sjálfur á fyrsta blaðamannafundi að þannig vildi hann vinna. Michael Edwards varð heimsþekkt stærð í kjölfarið. Hvort það hafi eitthvað breyst eftir því sem árin liðu er erfitt að segja.

    Arne Slot

    Afrakstur þessarar vinnu virðist hafa nokkuð afgerandi skilað þeirri niðurstöður að besti valkosturinn í boði fyrir Liverpool er Arne Slot. Hans nafn hefur verið frá upphafi verið nokkuð ofarlega á listum hjá veðbönkum en lítið sem ekkert hjá stuðningsmönnum og lítið hjá blaðamönnum, hvorki hér né á Englandi.

    Þegar kafað er dýpra ofan í hver Arne Slot er og hvað hann hefur verið að gera undanfarin ár sér maður fljótlega að rörsýn okkar á enska boltann er mun frekar vandamálið. Arne Slot er bara alls ekkert eins óþekkt stærð í Evrópu og virðist í fyrstu og það hefur verið vitað í tvö ár að hann var klárlega að fara í stærri deild og alvöru klúbb þegar hann telur það vera rétt. Þetta er miklu meira spennandi ráðning virðist vera en flestir átta sig á og erfitt að sjá hvernig hann er eitthvað minna spennandi en t.d. Robert Amorim sem hefur einnig verið mikið í umræðunni undanfarið. Þeir eru með frekar svipað CV og koma úr álíka sterkum deildum. Báðir eru ungir og ferskir á mælikvarða þjálfara og hvorugur er mengaður af því að hafa mistekist hjá einhverjum af hinum stórliðunum. Stjórar sem virka tilbúnir í að taka stórt skref uppávið.

    Arne Slot sjálfur er ástæðan fyrir því að hann er ekki löngu kominn í enska boltann. Crystal Palace og Leeds reyndu bæði að sannfæra hann um að koma í byrjun síðasta árs þegar þau voru að skipta um stjóra en hann taldi þeirra verkefni ekki rétt fyrir sig og valdi að vera áfram hjá Feyenoord.

    Tottenham reyndi sömuleiðis um að sannfæra hann um að koma til Englands síðasta sumar og töldu sig vera að fá hann er hann hafnaði þeim einnig og skrifaði frekar undir nýjan samning við Feyenoord. Hann kom Feyenoord í Meistaradeildina um vorið eftir sigur í Eredivisie og vildi frekar spreyta sig í þeirri deild en taka við Tottenham. Þetta sýnir ágætlega að hann sannarlega meinar það að hann er tilbúinn að bíða eftir réttu tækifæri fyrir sig og er tilbúinn að hafna töluvert betri tilboðum. Eins hefur hann þannig trú á sjálfum sér að hann taldi að annað tækifæri kæmi síðar þó hann héldi áfram hjá Feyenoord. Kannski ekki ósvipað því sem Xabi Alonso er að gera hjá Leverkusen?

    Liverpool er síður en svo eina liðið sem hefur áhuga á að fá Slot núna og Feyenoord hefur sannarlega engan áhuga á að missa manninn sem reif félagið upp fyrir þremur árum. Til að fá hann frá Hollensku meisturunum þarf Liverpool að greiða um €11m sem er töluvert.

    Hversvegna er hann svona eftirsóttur

    Dirk Kuyt sem er ennþá meiri goðsögn hjá Feyenoord en Liverpool þekkir Arne Slot vel og segir að hann hugsi um fótbolta 24/7. Hann leggur upp með jákvæðum sóknarfótbolta. Fyrrum liðsfélagar hans frá því hann var leikmaður sem og þjálfarar vissu snemma að hann yrði alltaf þjálfari eftir ferilinn og þegar hann hætti að spila fór hann strax að vinna sem þjálfari í yngri liðum.

    Slot byrjaði þjálfaraferilinn hjá Cambuur í 2.deild þegar hann og Sipke Hulshoff voru fengnir til að taka við liðinu til bráðabirgða eftir að stjóri liðsins var rekinn. Þeir stóðu sig hinsvegar það vel að þeir kláruðu tímabilið, liðið fór úr 14.sæti í 3.sæti en rétt missti af því að komast upp eftir tap í umspili. Í bikarnum unnu þeir frábært lið Ajax áður en þeir féllu úr leik í undanúrslitum eftir tap í vító gegn AZ Alkmaar. Sipke Hulshoff er einmitt aðstoðarstjóri Slot í dag og kemur með honum til Liverpool.

    Slot hélt þó ekki áfram hjá Cambuur heldur réði sig sem aðstoðarstjóra hjá einmitt AZ Alkmaar í Eredivisie sumarið 2017 þar sem hann var með Alberti Guðmunds og félögum. Fyrir tímabilið 2019/20 var tilkynnt að hann tæki við liðinu sjálfur.

    Ef að 2019/20 var pirrandi fyrir okkur stuðnigsmenn Liverpool vegna Covid þá var það ekkert í samanburði við stuðningsmenn AZ. Þeir voru búnir að vinna Feyenoord 0-3 og PSV 0-4 og Ajax 0-2, allt á útivelli þegar deildin var ekki bara stöðvuð heldur aflýst í mars 2020.  AZ var jafnt Ajax að stigum, níu leikir eftir og allt momentum með AZ en deildinni var bara slaufað án sigurvegara. Svipað og grunsamlega margir vildu sjá gerast á Englandi líka.

    AZ byrjaði næsta tímabil á eftir á svipuðum nótum og voru ekki búnir að tapa leiki í byrjun desember þegar samstarf Slot og AZ sprakk í háaloft. Feyenoord hafði þá tilkynnt að gamla kempan Dick Advocaat myndi hætta eftir tímablið, ekki ósvipaður fyrirvari og hjá Klopp núna. Slot var mjög augljós arftaki væri það möguleiki og þegar AZ komst að því að Slot væri í viðræðum við Feyenoord ráku þeir hann frekar en að láta hann klára tímabilið. Hann fékk því óvænt hálft ár í frí í byrjun árs 2021 sem hann notaði til að undirbúa sig. Þannig að þegar hann tók loks við Feyenoord árið eftir hafði hann aldrei klárað heilt tímabil sem knattspyrnustjóri.

    Feyenoord hefði vissulega átt að skoða það að gefa Slot bara strax starfið því tímabilið 2020-21 voru þeir 29 stigum frá toppnnum eða jafn langt og það var niður í botnsætin. Dick Advocaat sem var þarna í sínu 25. starfi sem stjóri bauð upp á drepleiðinlegan bolta og stemmingin í Rotterdam var bara alls ekki góð. Slot tók við Feyenoord við ekkert ósvipaðar aðstæður og kannski Amorim tók við hjá Sporting.

    Eyjólfur tók strax að hressast undir stjórn Slot, liðið spilaði mun skemmtilegri bolta, vann fleiri leiki, þétti vörnina og náði alla leið í úrslit Europa Conference League þar sem þeir lágu gegn hundleiðinlegu Roma liði Jose Mourinho sem pakkaði í vörn og slapp með sigurinn. Strax eftir fyrsta heila tímabil Slot sem stjóri var öllum í Hollandi ljóst að þarna væri mjög spennandi stjóri á ferðinni og árangur liðsins gerði það að verkum að flestar stjörnur liðsins voru seldar í stærri deildir í kjölfarið. Markahæsti leikmaður liðsins Luis Sinisterra var seldur til Leeds (og er núna kominn til Bournemouth). Malacia fór til Man Utd og Marcos Senesi til Bournemouth. Reiss Nelson sem var á láni frá Arsenal fór til baka og norski miðjumaðurinn Fredrik Aursnes fór til Benfica. Guus Til sem var lánsmaður fór til PSV. Þetta voru allt lykilmenn hjá Feyenoord sem byrjuðu í úrslitaleiknum gegn Roma.

    Slot er ekki eini maðurinn á bak við uppgang Feyenoord ekki frekar en Klopp á einn heiðurinn af gengi Liverpool. Það voru gerðar stórar breytingar á öllum strúktúr hjá félaginu 2020 og var Slot ein af þeim breytingum sem þeir gerðu. Þeir elfdu t.a.m. mjög njósnarateymi félagsins og stækkuðu þann markað sem þeir voru áður að vinna með. PSV og Ajax voru árin áður með töluvert mikið forskot fjárhagslega, ekki síst þar sem þeir seldu sýna lykilmenn fyrir mun hærri fjárhæðir og vildu forráðamenn Feyenoord jafna þann leik.

    Eitthvað voru þeir að gera rétt því liðið hélt áfram að bæta sig þrátt fyrir selja megnið af lykilmönnum liðsins. Slot er sagður vinna gríðarlega vel með ungum leikmönnum og hefur stórbætt leik flestra sinna leikmanna. Vonandi heldur hann þeim eiginleika á stærra sviði öfugt við t.d. landa sinn hjá Man Utd. Feyenoord keypti mikið til unga óþekkta leikmenn sumarið 2022 í bland við unga stráka sem Slot tók upp úr akademíunni. Það skilaði sér í fyrsta titli félagsins í sex ár og aðeins annars titils Feyenoord á þessari öld. Þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum allt tímabilið.

    Gengi liðsins núna er nánast eins og það var titil tímabilið í fyrra, munurinn nú er hinsvegar sá að PSV er að eiga ofur tímabil þar sem þeir hafa tapað aðeins einum leik og gert þrjú jafntefli í 31 leik. Þeir eru níu stigum frá því að vera með fullt hús! Undirliggjandi tölur hjá Feyenoord benda raunar til að þeir séu að bæta sig því xG munurinn yfir 90 mínútur hjá þeim núna er 1,9 mörk að meðaltali (xG – xA) en var 1,1 mörk að meðaltali í fyrra. Þ.e.a.s. þeir eru að skora tveimur mörkum meira að meðaltali í ár en þeir fá á sig.

    Það er ekki erfitt að sjá á þessari byrjun Slot sem þjálfari að hann veki áhuga stærri liða. Þetta er alveg áður en við kynnum okkur persónuleika hans nánar sem fær ekki síður góð meðmæli. Annað sem heillar klárlega eigendur Liverpool er sú staðreynd að hann bætir leikmenn og er góður að þróa og móta unga leikmenn og fá þá til að kaupa það sem hann er að selja þeim. Allir hans leikmenn og fyrrum leikmenn bera Slot vægast sagt vel söguna. Eins er hann vanur að keppa við félög sem hafa miklu miklu stærra budget og vinna slík lið.

    Arne Slot hefur aldrei á sínum ferli þjálfað lið sem kemur ekki út í plús á leikmannamarkaðnum eða í besta falli er alveg við núllið. Viðskiptamódel hollenskra liða er að selja sína bestu menn með hagnaði og Slot missti alltaf sína bestu menn. Feyenoord hefur aldrei keypt leikmann fyrir meira en €8m. Hann er sjálfur að kosta meira en félagið hefur borgað fyrir leikmann.

    Tvö sumur kom Feyenoord út í mínus en bæði skiptin minna en €10m. Eftir að Slot kom og fór að ná meiru út úr liðinu fóru þeir líka að fá meira út úr leikmannasölum. Það er magnað að bera Feyenoord saman við Ajax á þessum tíma, ekki síst í ljósi þess að Feyenoord hefur verið mikið öflugra lið.

    Leikstíll

    Dirk Kuyt vill meina að Arne Slot sé ekkert eins og einhver annar stjóri, ekki eins og t.d Klopp eða Guardiola. Hann er hinsvegar gríðarlega mikill aðdáandi Guardiola og notar City oft sem kennsludæmi fyrir sín lið. Eins er hann sagður mikill aðdáandi De Zerbi. Hann hefur mörg svipuð grunngildi og Klopp. Hann er engu minna krefjandi á að sínir menn séu í formi en þessir stjórar og er Feyenoord liðið alltaf í mjög góðu formi. Honum hefur engu að síður tekist vel að halda mönnum frá meiðslum og stýra álagi í samráði við læknateymi og gagnavinnu þeirra. Þarna er klárlega eitthvað sem hann getur vonandi bætt frá tíma Jurgen Klopp.

    Feyenoord hefur jafnan spilað 4-2-3-1 leikkerfið, svipað og Klopp gerði áður en hann tók við Liverpool. Tveir aftari miðjumenn sem eru töluvert flæðandi eru lykilmenn hjá Slot og t.a.m. vel hægt að sjá fyrir sér að Trent Alexander-Arnold verði miðjumaður hjá Slot, kannski ekki ósvipað og hann hefur verið að gera í vetur. Slot vill spila út úr vörninni og sýna hugrekki við það ekki ósvipað og Brighton og City gera t.d. Úr því að Matip er að fara er ekki ósennilegt að miðvörður sem er góður á boltann verði ofarlega á óskalista sumarsins. Heilsufar Konate og það hversu takmarkaður hann er við að koma boltanum frá sér gætu verið vandamál hjá Slot.

    Einhverjir fjölmiðlar hafa haldið því fram að Slot hafi verið ofar á lista hjá Liverpool en t.d. Alonso og Amorim þar sem hans leikstíll fellur betur að núverandi hópi Liverpool og hugmyndafræði félagsins. Tökum öllum slíkum fréttum auðvitað með fyrirvara en það er frekar auðvelt að heimfæra leikstíl Slot á megnið af leikmönnum Liverpool.

    Hollenska deildin

    Louis van Gaal sagði einhverntíma

    ‘When you’re ready, you’re ready.’ It doesn’t matter what age you are or how much experience you have — it’s about your qualities.

    Liverpool er klárlega að taka töluverða áhættu með því að ráða 45 ára stjóra sem eingöngu hefur þjálfað og spilað í heimalandinu. Það er töluverð pressa sem fylgir því að stýra Feyenoord og það félag er með verulega kröfuharða og öfluga stuðningsmenn, það er klárlega öflugur vettvangur fyrir nýja stjóra til að öðlast reynslu rétt eins og sama level er fyrir leikmenn sem svo stíga upp og spila á hærra leveli. Engu að síður er það heljarinnar stökk að fara frá Feyenoord sem aldrei hefur keypt leikmann sem kostar meira en €8m til Liverpool sem keyptu Luis Alberto og Thiago Ilori sem unglinga á slíkar fjárhæðir fyrir rúmlega áratug.

    Þetta skiptir samt engu máli ef Slot hefur karakter og hæfileika til að selja leikmönnum Liverpool það sem hann hefur verið að selja leikmönnum Feyenoord. Tungumálið verður klárlega ekki vesen, Slot talar betri ensku en Klopp og hefur talað við Feyenoord liðið á ensku í þrjú ár.

    Sagan er kannski ekki alveg með Slot hvað varðar hollenska þjálfara í enska boltanum en hluti af ástæðunni er kannski sú að bestu hollensku stjórarnir fóru jafnan ekkert í enska boltann nema undir lok ferilsins. (Hiddink, Van Gaal, Advocaat góð dæmi um það)

    Erik Ten Hag er auðvitað alls ekkert að hjálpa Arne Slot, hann tók við United liði sem er og hefur verið í alls konar vandræðum og hefur ekki náð nógu góðum tökum á félaginu. Það er mikið bent á Ten Hag í öllum samræðum við hollenska blaðamenn og aðra sérfræðinga nú í tengslum við komu Arne Slot og ljóst á þeim öllum að þetta eru afar ólíkir menn fyrir utan hárgreiðslu og þjóðerni.

    Koeman hefur stýrt stóru liðunum í Hollandi sem og landsliðinu, Valencia og Barcelona á Spáni en endaði einhvernvegin hjá Southampton og Everton þegar hann kom til Englands, það er enginn að fara bæta ímynd sína þar!

    Flestir hollenskir stjórar sem komið hafa í enska boltann tóku við liðum sem voru ekkert að fara vinna til verðlauna eða voru búnir með sín bestu ár annarsstaðar. Ten Hag er kannski sá sem fékk stærsta tækifærið og virðist ekki vera að nýta það þar til nú þegar Arne Slot fær Liverpool.

    Eredivisie er skv. UEFA 6.sterkasta deild í Evrópu í dag og er eins og við þekkjum nokkuð stökk frá stóru fimm deildunum niður í næstu fyrir neðan sem eru Eredivisie og Liga Portugal þó stærstu liðin í þessum deildum gætu vel spilað í stærri deildum. Deildin í Portúgal var talin sterkari þar til á síðasta tímabili og er nokkuð áhugavert að bera þær saman, sérstaklega í ljósi þess að við höfum núna í nokkrar vikur verið að spá í Robert Amorim stjóra Sporting.

    Samanlagt mæta mun fleiri á völlinn í Hollandi en báðar deildir eru svipað upp settar, þrjú lið sem eru sögulega afgerandi best. Tvö sem hafa dóminerað þessa öld og svo þriðja besta liðið sem hefur verið að stíga upp núna undanfarin ár (Feyenoord / Sporting). Það eru öllu fleiri lið í Hollandi sem geta unnið deildina og hafa gert það á undanförnum árum á meðan það koma bara max þrjú lið til greina í Portúgal.

    Heildarmarkaðsvirði leikmanna í Hollandi er 1,32 BN skv Transfermarket á móti 1,45 BN í Portúgal. Þessum tölum verður þó að taka með vægast sagt miklum fyrirvara í báðum löndum. Eru þó nokkuð svipaðar þarna eins og annarsstaðar, a.m.k. á pappír.

    Auðnum er svo svipað “jafnt” skipt milli liða á báðum deildum.

    Portúgalskir stjórar í enska boltanum eru svo töluvert mikið Jose Mourinho og fimm aðrir. Engu minna öruggt að ráða stjóra frá Portúgal en Hollandi. Hinir eru Nuno Espírito Santo, Bruno Lage, Marco Silva, Carlos Carvalhal og Villas-Boas.

    Stjóraskipti ensku liðanna 

    Blessunarlega er það er ekki algengt að Liverpool skipti um stjóra og fylgir því óvissutilfinnig, líklega sjandan meiri en einmitt nú. Þróunin á þessari öld hefur hinsvegar verið á einn veg og ef þú ert ekki að stýra öðru af toppliðunum er starfsöryggið lítið sem ekkert. Það jafnvel er ekki alltaf nóg núorðið.

    Það er erfitt fyrir okkur að meta núna hvar Arne Slott er á skalanum frá Roy Hodgson til Jurgen Klopp, líklega aðeins fyrir ofan Brendan Rodgers og vonandi með þak til að ná miklu hærra. Ef hann er framtíðarstjóri Liverpool þíðir það að félaginu gengur vel og vonandi verður það raunin.

    En skoðum svona til gamans hvernig þróunin hefur verið á þessari öld:

    Klopp, Guardiola og Arteta þeir einu sem tolla í starfi enda árangur þeirra liða þannig að þeir stjórna hvenær þeir hætta. Ten Hag verður farinn í sumar rétt eins og Pochettino. Gangi sá spádómur eftir verður það 17. stjórabreyting Chelsea á þessari öld og áttunda stjórabreyting United frá því Ferguson hætti fyrir rétt rúmlega áratug. Tottenham hefur 15. sinnum skipt um stjóra frá aldamótum. Vonandi sleppur Liverpool við slíka þróun.

    Frá því FSG tóku við hafa þeir í raun bara ráðið tvo stjóra, Rodgers tók rúmlega þrjú tímabil og Klopp níu. Dalglish telur eiginlega ekki með enda kom hann bara til að hreinsa risaskitu fyrri eigenda.

    Helstu verkefni Arne Slot / Richard Hughes í sumar

    Arne Slot er 45 ára og kemur vonandi með mjög ferska vinda í Krikby sem ekki er vanþörf á. Endurnýjun á leikmannahópi Liverpool hófst fyrir alvöru síðasta sumar og klárlega góður grunnur til staðar fyrir Slott að vinna úr. Engu að síður er vel hægt að sjá tækifæri til að gera nokkuð stórar breytingar á hópnum í sumar, þ.e.a.s. kveðja enn fleiri lykilmenn sem hafa þjónað Liverpool vel í tíð Klopp en eru búnir að toppa. Slot hefur hingað til helst viljað vinna með ungum orkumiklum leikmönnum en það er auðvitað ekkert lögmál. Hjá Liverpool fær hann vonandi eins og Klopp að halda þeim leikmönnum sem hann vill halda, öfugt við starfsumhverfi hans hjá Feyenoord.

    Markmenn

    Liverpool verður að eiga tvo mjög góða markmenn m.v. hversu oft Alisson er frá. Kelleher  þarf einnig að fara annað til að spila og þarna gæti vel verið tækifæri til að ná í smá aur. Alls engin þörf samt á að gera neitt ef Kelleher fer ekki fram á sölu.

    Vörnin

    Van Dijk hefur lýst yfir mikilli ánægju með að fá landa sína og verður vonandi áfram fyrirliði Liverpool. Það þarf að fara huga að arftaka hans samt enda 33 ára í sumar

    Stóra tækifærið er að losna við Matip af launaskrá. Einhverjir sem þekkja leikstíl Feyenoord draga í efa að hann sé spenntur fyrir Konate þegar kemur að því að bera boltann út úr vörninni og hvað þá meiðslasögu hans. Það er mjög erfitt að sjá Joe Gomez fyrir sér sem bakvörð áfram hjá Slot svo vonandi fer hann aftur í miðvörðinn, ekki að hann sé betri á boltann en Konate! Quansah er svo að springa vel út í sumar og verður vonandi framtíðin hjá Liverpool í þessari stöðu. Liverpool á svo ennþá Sepp van den Berg, samlanda Slot, spurning hvor það sé einhver sem hann vill skoða?

    Hér myndi maður ætla að Liverpool verði að styrkja sig um a.m.k einn leikmann. Mögulega t.d. Hancko frá Feyenoord, slóvaka sem hefur sprungið út hjá Slot. Eða Inacio 22 ára miðvörð Sporting. 

    Bakverðir 

    Andy Robertson er einn af þeim þjónum Klopp sem væri kannski ekki óhugsandi að sjá fara í sumar ef félagið er með ungan ferskan arftaka. Andy Robertson 22-28 ára er reyndar ideal leikmaður fyrir leikstíl Slot og vonandi nær Slot að nýta skotann nokkur tímabil í viðbót. Tsimikas mætti þá endurnýja, varamaður sem eru svona oft meiddur þegar á reynir eru ekki spes valkostur.

    Hægra megin verður mjög spennandi að sjá hvar hann hugsar Alexander-Arnold. Haldi Slot sig við 4-2-3-1 blasir við að Trent komi á miðjuna og Bradley verði í bakverði. Þetta er reyndar eitthvað sem Klopp hefur ekki fengið tækifæri til að láta á reyna í vetur enda hafa þeir verið meiddir til skiptis. Eins gæti Slot vel haldið Trent áfram í svipuðu hlutverki og hann hefur verið nú þegar hjá Liverpool, bakvörður sem leitar inn á miðju.

    Miðjumenn

    Liverpool þarf ennþá að kaupa heimsklassa djúpan miðjumann, hvort sem það er tilbúin vara eins og Rice eða yngri leikmaður með þak til að stíga hratt upp. Bajcetic er kannski smá wild card hérna, hvernig hann kemur undan meiðslum og hvaða álit nýr stjóri hefur á honum. Endo verður vonandi áfram en það þarf meira stál í hópinn og færri leiki með Mac Allister sem varnartengilið.

    Thiago fer af launaskrá og skapar svigrúm fyrir leikmann með stóran launapakka í staðin.

    Curtis Jones hefur aldrei tekið heilt tímabil þar sem hann var stöðugur mest allt mótið og hvað þá nálægt því að vera heill heilsu. Hann er að spila tæplega 1.200 mínútur (35%) í deild á hverju ári í liði sem hefur alltaf verið í meiðslavandræðum í þessari stöðu. Hann er rosalega mikið að verða arftaki Ox og Keita.

    Það verður svo spennandi að sjá hvað Slot gerir með Gravenberch, Szoboszlai, Elliott og Clark. Allt strákar rétt eins og Jones og Mac Allister á frábærum aldri með mun hærra þak en þeir hafa verið að sýna í vetur.

    Frammherjar 

    Af mismunandi ástæðum er enginn sóknarmaður sem ekki má missa sín fyrir ferskari vinda í sumar. Auðvitað fara þeir ekki allir í einu en það er ekki heimsendir eftir 1-2 af þeim fara og þá sama hver.

    Salah virkar bara kominn yfir sinn hátind sem leikmaður og ef enn er hægt að fá risafjárhæð fyrir hann fá Saudi er líklega réttur tími í sumar að taka slíku boði. Það er ekki síst varnarlega sem maður saknar Salah enda alveg óþolandi stundum að horfa á hann á jogginu varnarlega þegar Liverpool missir boltann, eins bara hvað varnarleik frá fremsta manni varðar. Hann er svo að klikka litlu færri færum en Darwin Nunez. Auðvitað vill maður ekki missa Salah samt nema fyrir einhverjar bull fjárhæðir sem hægt er að nota til að styrkja og yngja sóknarlínuna.

    Diogo Jota má svo bara fara ekki nema Slot vinni kraftaverk með hann heilsufarslega. Meiðsli Jota eru mjög líklega að kosta Liverpool titilinn í ár. Þetta er bara svo einfalt. Gaurinn er gjörsamlega alltaf meiddur. Það er raunar með ólíkindum hvað lykilmenn Liverpool á besta aldri (24-28 ára) eru oft meira og minna á nuddbekknum meiddir.

    Darwin Nunez í núverandi formi er svo brjálað pirrandi leikmaður. Hann er að slá einhverskonar met í að hitta í tréverkið og skapar sér sannarlega mikið af færum en færanýtingin er hreint galið léleg, það sem er verra er og öfugt við Jota (þá sjaldan hann er með) þá versnar tölfræði Nunez til muna þegar mest liggur við. Ef Liverpool er undir eða staðan er jöfn versnar færanýting Nunez til muna. Held að hann fari ekki í sumar og það er alveg spennandi að sjá hvort öðruvísi leikstíll gæti hentað honum þar sem hann yrði meira afgerandi nía upp á topp. Slot hefur verið að fá mikið á sínum sóknarmönnum hingað til.

    Cody Gakpo, fínn sem fimmti valkostur en ekki mikið meira en það hingað til. Virkar of soft. Hann er á móti líklega sá sóknarmaður Liverpool sem Slot þekkir best.

    Luis Diaz hefur verið hvað skástur undanfarið og sýnt mest hjarta af leikmönnum liðsins en honum gengur líka oft alveg voðalega illa að nýta helvítis færin.

    Það má samt ekki gleyma því að Slot er að taka við verulega góðu búi og mikið af því sem er að pirra okkur stuðningsmennn Liverpool núna undir lok þessa tímabils gæti vel lagast með nýjum ferskum vindum og áherslum á æfingasvæðinu í sumar. Megnið af þeim leikmönnum sem Slot fær hjá Liverpool eru ungir og ættu að vera móttækilegir fyrir hans hugmyndafræði. Það þarf alls enga byltingu á leikmannamarkaðnum í sumar.

    Það verður spennandi að sjá hvernig Slot veldur stjórastöðunni hjá Liverpool og bara hvað félagið gerir meira í sumar. Það er ljóst að andlega eru leikmenn komnir með nóg af þessu tímabili og bíða þess að þetta verði flautað af, ekki frá því að maður sér þar líka.

    [...]
  • West Ham 2 – 2 Liverpool

    Liverpool spilaði næst síðasta útileikinn á tímabilinu þegar liðið heimsótti West Ham og gerði 2-2 jafntefli í kaflaskiptum leik.

    Mörkin

    1-0 Bowen (43. mín)
    1-1 Robertson (48. mín)
    1-2 Areola (sjálfsmark)(65. mín)
    2-2 Antonio (77. mín).

    Hvað gerðist helst markvert?

    Manni fannst okkar menn alls ekki vera mættir til leiks í fyrri, nema þá kannski helst Díaz sem átti skot í stöng, as is tradition. Paqueta var stálheppinn að fá ekki gult fyrir að traðka á ökklanum á Macca, stundum hefði nú meira að segja sést rautt en það var ekki einusinni spjald. Þetta var samt ekki mesta klúðrið hjá Anthony Taylor í dag, meira um það á eftir. Okkar menn þurftu svo auðvitað að fá á sig mark rétt fyrir hálfleik, Quansah gerði mistök við að spila út úr vörninni sem gáfu hornið, og svo voru okkar menn bara ekki vakandi þegar hornspyrnan var tekin, sérstaklega ekki Gravenberch og Gakpo sem voru næstir Bowen (og eru báðir stærri en hann, en hann náði að skalla boltann).

    Það var svo AAAALLLT annað lið sem kom inná í síðari, án skiptinga samt, og Robertson var búinn að jafna eftir 3 mínútur. Hann beitti þeirri útsmognu aðferð að skjóta boltanum þannig að hann lenti á milli markstanganna, fór ekki beint á markvörðinn, og var ekki endilega að reyna að lúðra honum eins fast og mögulegt var. Um miðjan síðari hálfleik kom svo mark númer 2, sjálfsmark í þetta sinn en Gakpo á eitthvað aðeins í því. En svo á 77. mínútu komst Bowen upp hægri kantinn, gaf á Antonio sem var nálægt vítapunktinum og skallaði óverjandi í hornið nær.

    Um það leyti var verið að skipta Salah, Nunez og Gomez inná, og Salah og Klopp fóru eitthvað að kýta. Ómögulegt að segja hvað þeim fór á milli, en aldrei gaman að sjá svonalagað. Nunez a.m.k. róaði Salah og skiptingin gekk snuðrulaust fyrir sig að öðru leyti.

    Svo komu mestu furðulegheitin hjá Taylor vini okkar. Liverpool í sókn, og boltinn endar í höndunum á Areola. Ekkert dæmt. Leikmenn skokka út á miðjan völl og Areola gerir sig kláran til að spyrna boltanum burt, hendir honum frá sér en fer svo eitthvað að sinna löppunum á sér, mögulega var hann eitthvað að kveinka sér. Gakpo sér þetta og hleypur að boltanum, og virtist vera í fullum rétti að renna honum bara í nánast autt markið, en Taylor fer þá að flauta eins og vitleysingum og fer svo að huga að Areola og vill að hann leggist í grasið og það komi einhverjir að huga að honum. Stórfurðulegt í alla staði.

    En semsagt, það voru ekki fleiri mörk skoruð, en Elliott átti skot í þverslá. As is tradition.

    Hvað þýða úrslit leiksins?

    Í raun ekkert. Liðið var þegar úr leik í keppninni um titilinn, það gerðist á móti Palace og útslitin á Goodison Park gulltryggðu það, leikurinn í dag breytti þar engu um. Það er ekki að fara að gerast að bæði Arsenal og City séu að fara að tapa tveim leikjum af þeim sem eftir eru. Nú er þetta spurning um að tryggja 3ja sætið, það er buffer upp á 6 stig, ef liðið klárar leiktíðina eins og það byrjaði seinni hálfleikinn er ekkert að óttast. Ef það klárar leiktíðina eins og það kláraði fyrri hálfleikinn er full ástæða til að óttast að CL sætið gæti tapast.

    Hverjir áttu góðan dag?

    Svosem enginn sem var frábær út í gegn, Alisson átti reyndar slatta af mjög góðum vörslum og gat lítið gert í mörkunum. Gravenberch hefði mátt gera betur í fyrsta marki West Ham og þá væri hann í umræðunni sömuleiðis.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Alveg fullt, en undirritaður er fyrst og fremst glaður með að leikurinn skyldi ekki tapast.

    Hvað er framundan?

    Það sem skiptir okkur kannski mestu máli er að liðið er að fara að fá nýjan stjóra. Einar Matthías gerir því betri skil í færslu sem ætti að detta inn í kvöld eða á morgun, en það er vel hugsanlegt að Arne Slot verði tilkynntur á þeim tíma. Svo eru það þessi litlu smáatriði að klára næstu leiki: Spurs á Anfield eftir viku, Villa úti 8 dögum þar á eftir, og svo Úlfarnir á Anfield þann 19. maí.

    Okkur langaði öll til þess að liðið gæfi Klopp það “send-off” sem hann á skilið. Helst að enda með titli. Óhætt að segja að síðustu vikur hafi komið í veg fyrir að af því verði, en það er samt hægt að klára þetta á sómasamlegan hátt ef leikmenn spila eins og við vitum að þeir geta.

    Annars er það alltaf næsta tímabil.

    [...]
  • Liðið gegn West Ham

    Áhugavert lið:

    Bekkur: Kelleher, Konate, Gomez, Tsimikas, Bajcetic, Jones, Szoboszlai, Salah, Nunez

    Semsagt; Konate, Nunez, Salah og Szoboszlai allir á bekk. Hafa verður í huga að það er stutt síðan liðið kláraði leik, en í ljósi þess að fæstir mættu til leiks á Goodison er þá hægt að tala um að þeir séu þreyttir? Allavega, þetta verður áhugaverð uppstilling.

    Nokkuð ljóst að núna þarf kraftaverk ef það á eitthvað betra en 3ja sætið að verða niðurstaðan. Og n.b. þá hefði maður líklega alveg tekið 3ja sætinu plús Carabao bikarinn í upphafi leiktíðar, en í augnablikinu virkar þetta samt eins og vonbrigði. Líka ef maður tekur með í reikninginn stöðuna á United og Chelsea.

    Nóg um það. Næst síðasti útileikur Klopp. Njótum á meðan á því stendur.

    KOMA SVO!!!!!

    [...]
  • Upphitun: Hádegisleikur gegn West Ham

    ATH: Arne Slot tekur við Liverpool- Liverpool og Feyenoord hafa náð munnlegu samkomulagi
    Sá nánar umræðu í færslu fyrir neðan upphitun


    Það er erfitt að huga að næsta leik þegar liðið er búið að kasta frá sér öllum titlum á síðustu vikum en þannig er bara staðan. Eftir tapið gegn Everton kúplaði ég mig alveg út og var bara komast að því núna þegar ég byrjaði á upphitun hvernig leikur City fór í gær.

    Nú er hinsvegar bara tími til að setja hausinn upp, enginn pressa bara klára tímabilið og kveðja stjóran með stæl og fara svo að undirbúa (líklega) stjórnartíð Arne Slot, meira um það í færslunni hér fyrir neðan.

    Á morgun mætum við West Ham í hádegisleik og endurheimtum þar Gakpo sem var fjarverandi gegn Everton því konan hans var að eignast barn og við söknuðum hans mjög.

    Spurningin er kannski helst hvern hann leysir af í fremstu víglínu því þó Nunez sé að fá fyrirsagnirnar fyrir slaka frammistöðu hefur Salah ekki verið mikið betri eftir að hann snéri aftur úr meiðslum.

    Geri ráð fyrir þessu liði. Gakpo inn fyrir Nunez, Quansah fyrir Konate og Gravenberch fyrir Jones og hinir átta geta þakkað fyrir að fá að halda sæti sínu eftir síðasta leik.

    Fjórir leikir eftir undir stjórn Klopp, hefðum við viljað enda á tilti? Vissulega en það eru hverandi líkur á því þannig endum með fjórum sigrum og minnumst góðu tímana sem Klopp færði okkur áður en við höldum í nýja tíma.

    [...]
  • Uppfært: Arne Slot næsti stjóri Liverpool?

    Uppfært: Liverpool og Feyenoord hafa náð munnlegu samkomulagi, Arne Slot verður næsti stjóri Liverpool.

    Aðstoðarstjórinn og head of performance koma líka í teymið


    Arne Slot og hans menn í Feyenoord eiga leik í Eredivisie núna í dag og fyrir leik var hann spurður út í orðróm um að hann væri að taka við Liverpool. Svarið var á þessa leið:

    Það verður því að teljast verulega líklegt að hann verði næsti stjóri Liverpool, það væri verulega úr karakter fyrir FSG að láta svona orðróm ganga það langt að stjórinn er opinberlega farinn að tjá sig um þetta. Vandræðalegt í meira lagi satt að segja ef þetta verður svo ekki að veruleika.

    Hvort félögin séu enn í samningsviðræðum eða bara að bíða eftir rétta tækifærinu til að tilkynna Slot er annað mál, mín spá er að þetta sé svo gott sem frágengið. Eins er svosem vel hægt að skilja það að hann var ekki kynntur í gær eða dag þar sem Liverpool áttu að spila gegn Everton í gærkvöldi (mættu reyndar ekki) og Feyenoord er að spila í kvöld. Eigum við að segja að morgundagurinn er tilvalinn í þetta? Það getur a.m.k. ekki skaðað formið á okkar mönnum neitt meira.

    Köfum betur ofan í hver þetta svo er í raun og veru þegar við fáum (Staðfest) á þetta. Arne Slot er að mörgu leik með svipað CV í Hollandi og Amorim í Portúgal, en klárlega ekki fyrsta nafn hjá neinum yfir næsta stjóra Liverpool, við sem fögnuðum endurkomu Edwards verðum líklega að treysta því aðeins núna að þeir viti hvað þeir eru að gera.

    Hér er annars ágætur þráður um kappann

    [...]
  • Everton 2-0 Liverpool

    Jæja, nú þarf maður að reyna að koma einhverjum orðum yfir þennan gífurlega vonbrigða leik hjá Liverpool sem tapaði – nei, skíttapaði – fyrir Everton með tveimur mörkum gegn engu og hreinlega bara áttu varla breik í eina einustu baráttu í þessum leik.

    Allt frá því að leikurinn var flautaður á þá varð Liveprool undir í öllum baráttum og þær sem þeir náðu að vinna fengu Everton alltaf aukaspyrnur svo fljótt sá maður að hausinn á Liverpool liðinu fór að síga neðar og neðar. Dómarinn dæmdi víti snemma en tveir sóknarmenn Everton voru rangstæðir svo það var réttilega dæmt af en hefði átt að vera víti til varnaðar – en nei, áfram hélt Everton að spila sig yfir og í gegnum varnarlínu Liverpool.

    Þeir skoruðu svo líklega ljótasta mark sem ég hef séð Liverpool fá á sig síðan Sudnerland skoraði sundboltamarkið fyrir einhverjum fimmtán árum síðan eða eitthvað þar um bil held ég. Everton réttilega komið yfir en svaraði Liverpool fyrir sig á réttan hátt? Nei.

    Áfram hélt framlínan að klúðra færum og svo þegar Everton komust í 2-0 þá gerði Klopp einhverja voða skrítna varnarsinnaða skiptingu þegar Elliott kom inn ásamt Quansah og Endo. Ekki breyttist neitt við það og varð bara bitlausara og þegar tíu mínútur voru eftir og Liverpool enn tveimur mörkum undir og ekkert að frétta þá komu þeir Tsimikas og Gomez inn – sem gerði allt bara enn bitlausara.

    Þetta var svo þrotlaust, hugmyndansautt og lélegt. Allar 90 mínúturnar og fyrir utan Fulham leikinn sem var nokkuð góður þá hefur þetta verið trendið undanfarið og kostað þetta góða lið alltof mikið og því miður er maður líklega bara búinn að átta sig á því núna að þessi tvö óþarfa töp gegn Everton og Crystal Palace á skömmum tíma hafi endanlega gert út um vonir manns um ævintýralegan endi á tíma Klopp hjá Liverpool.

    Ég get alveg lifað með og dílað við tapleiki en þeir mega ekki vera svona. Tap þar sem liðið virkar loftlaust, lint og hugmyndasnautt er bara ekki boðlegt, það á ekki að sjást hjá svona reyndu og góðu liði og því miður er það orðið leiðinlega mikill vani hjá þeim upp á síðkastið. Þetta þarf að laga – það er því miður líklega of seint núna en það er þó enn mikkilvægt að enda deildina á fínu róli og þarf þetta að lagast strax í hádeginu á laugardaginn þegar Liverpool heimsækir West Ham.

    [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close